Danska ríkislottóið, Danske Spil ( www.danskespil.dk ), hefur nýverið tekið í notkun snjallsímalausn Betware fyrir lottó-, skafmiða- og getraunaleiki. Í henni felst að danskir spilarar geta nú keypt lottó- og skafmiða og tippað á íþróttaleiki í gegnum snjallsímann sinn. Betware hefur átt farsællt samstarf við Danske Spil frá árinu 2001 og er þetta í fyrsta sinn sem snjallsímaeigendum gefst kostur á að taka þátt í leikjum fyrirtæksins í gegnum símann sinn. Danska lottóið þykir eitt það framsæknasta á sínu sviði í heiminum en í dag eru yfir 25% af heildarsölu fyrirtækisins í gegnum Internetið og fer sú hlutdeild vaxandi.

Þá kemur fram í tilkynningu frá Betware að jafnframt hafi CIRSA Gaming Corporation tekið í notkun leikja- og hugbúnaðarlausn frá Betware fyrir Internet og snjallsímavefi fyrirtækisins á Spáni ( www.cirsa.es ).

Í tilkynningunni segir að Betware hóf samstarf við CIRSA á seinni hluta síðasta árs. CIRSA er leiðandi í leikjaiðnaði á Spáni og í spænskumælandi löndum. CIRSA er eitt af fyrstu leikjafyrirtækjunum til að taka í notkun leikjalausnir á Internetinu sem falla að nýjum reglum á spænskum markaði. Um er að ræða hugbúnaðarlausn frá Betware sem gerir CIRSA kleift að tengja saman leiki frá ólíkum leikjaframleiðendum. Sonia Carabante, framkvæmdastjóri eGaming hjá CIRSA, segist fullviss um að framúrskarandi samsetning leikjalausna frá þeim hugbúnaðarframleiðendum sem CIRSA hefur kosið að vinna með auki á velgengni fyrirtækisins. „Betware hefur gegnt lykilhluverki við að samhæfa allar bestu leikjalausnirnar sem við viljum bjóða viðskiptavinum okkar,“ segir Sonia Carabante.