Jeff Bezos, stofnandi Amazon, verður um borð í fyrsta farþegaflugi geimflaugafyrirtækisins Blue Origin þann 20. júlí næstkomandi. Hann segir frá þessu í færslu á Instagram.

„Ég vil fara í þetta flug því mig hefur langað til að gera þetta allt mitt líf,“ segir Bezos sem stofnaði fyrirtækið árið 2000. Hann er eigandi alls hlutafjár Blue Origin og fjármagnar fyrirtækið með sölu á hlut sínum í Amazon.

Jeff Bezos bauð bróður sínum Mark Bezos með sér í flugið. „Ég bjóst ekki einu sinni við að hann yrði í fyrsta fluginu,“ segir Mark í myndbandinu.

Sjá einnig: Hefja miðasölu í geimferðir

Í fluginu verður einnig hæstbjóðandi í opinberu uppboði sem stendur enn yfir. Hæsta tilboð nam 2,8 milljónum dala, eða um 340 milljónum króna, áður en Bezos tilkynnti í morgun um að hann yrði meðal farþega, að því er kemur fram í frétt CNBC .

New Shepard, geimflaugar Blue Origin, rúma allt að sex manns. Geimhylkin hafa náð allt að 100 kílómetra hæð í tilraunaferðum. Hylkin hafa stóra glugga sem veita farþegum einstakt útsýni í geimnum.