Alls eru 140 fyrirtæki skráð með rekstrarleyfi til að reka bílaleigu samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Árið 2008 voru 64 fyrirtæki með rekstrarleyfi sem þýðir að bílaleigum hefur fjölgað um tæp 120 prósent á síðustu sex árum. Rekstrarleyfin eru gefin út í fimm ár í senn og þurfa bílaleigur því að endurnýja þau reglulega.

Næsta sumar má gera ráð fyrir að um 12 þúsund bílaleigubílar verði í útleigu hér á landi. Af þeim eru níu stærstu bílaleigurnar með tæplega 9 þúsund bíla eða um 75% bílaflotans. Þar með er ljóst að gríðarlegur fjöldi smærri bílaleiga er á markaðnum. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru það bæði litlar bílaleigur en einnig eru dæmi þess að gistiheimili, ferðaskrifstofur og verkstæði séu með nokkra bíla á sínum snærum, sem leigðir eru út til ferðamanna.

Höldur, Alp og Hertz eru stærstar

Stærstu fyrirtækin á bílaleigumarkaðnum eru Bílaleiga Akureyrar (Höldur ehf.), Alp hf., sem rekur Avis og Budget bílaleigurnar, og Bílaleiga Flugleiða ehf. sem rekur Hertz bílaleiguna. Velta þessara þriggja stærstu á bílaleigumarkaðnum nam 7,2 milljörðum árið 2012 samkvæmt ársskýrslum. Höldur skilaði mestum hagnaði árið 2012 eða 205,8 milljónum króna.

Hagfræðideild Landsbankans gaf nýlega út skýrslu um ferðaþjónustuna þar sem henni er skipt upp í fimm undirgreinar: bílaleigur, farþegaflutninga, gistingu, ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Í skýrslunni kemur fram að frá árinu 2009 til 2012 hafi tekjurnar aukist mest hjá bílaleigum eða um 124% á tímabilinu. Af undirgreinum ferðaþjónustunnar var tekjuaukningin minnst hjá farþegaflutningafyrirtækjum á þessu tímabili eða 42%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .