Ríkisendurskoðun segir forstöðumenn ríkisstofnana hafa verið falin aukin ábyrgð á rekstri stofnana og leggur m.a. til að af þeim sökum verði bílanefnd ríkisins lögð niður. Í staðinn er lagt til að kaup stofnana á bifreiðum verði með svipuðu sniði og við kaup á annarri vöru og þjónustu, þ.e. samkvæmt rammasamningum.

Ríkisendurskoðun bendir m.a. á það í nýrri skýrslu að Ríkiskaup geri samninga í kjölfar útboða og sé stofnunum skyld að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja sem eiga aðild að þeim.

Fram kemur í umfjöllun Ríkisendurskoðunar um málið að bílanefnd ríkisins hafi m.a. það hlutverk að taka afstöðu til beiðna ríkisstofnana um kaup eða rekstrarleigu á bifreiðum. Að fengnu samþykki nefndarinnar geti stofnanir snúið sér til Ríkiskaupa sem annist innkaup eða samninga um leigu fyrir þeirra hönd. Aksturssamningar stofnana við starfsmenn sína eru einnig háðir samþykki nefndarinnar. Þá skuli nefndin framfylgja reglum um merkingar ríkisbifreiða og reglum um innkaup og endurnýjun á ráðherrabílum.

Umfjöllun ríkisendurskoðunar um bílanefnd ríkisins