Þolinmæði bingó-umsjónarmanna Bretlands gagnvart stjórnvöldum þar í landi er á þrotum. Stjórnvöld hafa nú samkvæmt frétt Telegraph ítrekað frestað aðgerðum til að koma bingó-stöðum til hjálpar.

Framkvæmdastjóri bingó samtakanna (Bingo Association) segir fjölda bingóklúbba hafa farið á hausinn á undanförnum mánuðum, en 4. mars tilkynnti íþróttamálaráðherra Bretlands, Gerry Sutcliffe, að tilkynnt yrði fljótlega hvaða aðgerða yrði gripið til til að hjálpa bingóklúbbum landsins í gegnum erfiðleika sem þeir glíma nú við.

Um 600 slíkir bingóklúbbar eru starfræktir í Bretlandi. Þeir hafa átt undir högg að sækja vegna reykingabanns, nýrrar löggjafar um takmörkun á vinningsupphæð og vegna tvöfaldrar skattlagningar, samkvæmt frétt Telegraph.

Eigendur bingóklúbba segja að einfaldast væri fyrir stjórnvöld að minnka eða afnema virðisaukaskatt af starfseminni.