Verð á rafmyntinni bitcoin hefur fallið um meira en 8% síðasta sólarhringinn og stendur nú í 18,5 þúsund dölum. Gengi rafmyntarinnar hefur ekki verið lægra í tvo mánuði.

Í umfjöllun Reuters segir að lækkunina megi rekja til áhyggja yfir hertara regluverki sem og minnkandi eftirspurn eftir áhættusömum eignarflokkum vegna væntinga um að vextir hækki á næstu misserum. Bandaríski seðlabankinn tilkynnir um vaxtaákvörðun á miðvikudaginn og er búist við að bankinn hækki vexti um 0,75 prósentur.

Gengi bitcoin, sem er stærsta rafmynt heims sé litið til markaðsvirðis, er um 60% lægra en í byrjun árs en virði rafmyntarinnar lækkaði verulega í byrjun sumars.

Sjá einnig: Vextir vestanhafs verði hærri en 4%

Bálkakeðja rafmyntarinnar Ethereum gekk í gegnum umfangsmikla uppfærslu í síðustu viku. Hún hefur í för með sér breytt staðfestingarferli á færslum sem dregur stórlega úr orkunotkun.

Gary Gensler, stjórnarformaður Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC), gaf til kynna í síðustu viku að breytingarnar gætu haft í för sér aukið eftirlit eftir rafmyntinni.