„Það er augljóst að þetta háa vaxtastig er mjög alvarlegt fyrir öll fyrirtæki," segir Bjarni Benediktsson, alþingismaður og stjórnarformaður N1, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.  „Á hinn bóginn held ég að það sé ekki raunhæft að vera með væntingar um miklar vaxtalækkanir Seðlabankans skammt fram í tímann, þó að vonir standi til að þeir geti byrjað vaxtalækkunarferli sem fyrst."

Þegar Bjarni er spurður hvernig hann sjái fyrir sér ástandið að sex mánuðum liðnum, miðað við að allt verði óbreytt, þar með stýrivextir og aðgangur að erlendu lánsfé, segir hann að það sé þungur róður framundan í rekstri fyrirtækja. „Ég held að þau vandamál sem nú þegar eru orðin í rekstri fyrirtækja eigi eftir að brjótast upp á yfirborðið í auknum mæli á þessu sex mánaða tímabili. Ég er ekki bjartsýnn á að það birti mikið til næstu sex mánuði en bjartsýnn á að við getum lagt grunninn að því að viðhalda hér hagvexti og að okkur takist - með því að sameina kraftana - að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun þannig að það dragi ský frá sólu í byrjun næsta árs."

Nánar er fjallað um málið í helgarútgáfu Viðskiptablaðsins.