Fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator Partners, hefur fjárfest fyrir margar milljónir punda í tæknifyrirtækinu V-Nova Limited, til að fjármagna frekari vöxt fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef V-Nova .

Fyrirtækið V-Nova sérhæfir sig í samþjöppun myndefnis en samhliða fjárfestingunni mun Björgólfur auk þess taka sæti í stjórn fyrirtækisins.

Novator á hluti í sjö fjarskiptafyrirtækjum, þar á meðal pólska fyrirtækinu Play, fyrirtækinu WOM í Chile og íslenska farsímafyrirtækinu Nova. Auk þess hefur fyrirtækið meðal annars fjárfest í lyfjageiranum, hreinni orku og fasteignum.

V-Nova er breskt tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í nýstárlegum samþjöppunarlausnum á sviði kvikmyndargerðar. Samþjöppunarlausnin sem V-Nova býður upp á nefnist PERSUS og hefur tæknin unnið til fjölda verðlauna.