Björn Bragi Arnarsson hefur verið ráðinn nýr ritstjóri tímaritsins Monitor. Björn Bragi er 25 ára gamall og hefur komið víða við á stuttum ferli, sem blaðamaður á Blaðinu og 24 stundum og sem ritstjóri vefritsins sáluga Panama.is. Einhverjir muna eflaust eftir Birni Braga frá vettvangi framhaldsskólanna en hann var í sigurliði bæði í Gettu Betur og Morfís, þar sem hann hlaut hinn eftirsótta titil Ræðumaður Íslands.

Í tilkynningu segir að Björn Bragi hafi  þegar hafið störf og undirbýr nú að kappi útgáfu næsta tölublaðs Monitor, auk þess sem hann hefur tekið við ritstjórn vefútgáfunnar Monitor.is.  Hann segir að nýjum mönnum fylgi óhjákvæmilega alltaf einhverjar breytingar, en að hann hyggist í megindráttum halda áfram á þeirri braut sem Atli Fannar Bjarkason, fyrrum ritstjóri tímaritsins, markaði í ritstjóratíð sinni. Hann segir áherslurnar verða á dægurmenningu í víðum skilningi, blað skrifað af ungu fólki fyrir ungt fólk.

„Þetta er skemmtileg áskorun sem leggst afar vel í mig. Ungt fólk á Íslandi er að gera marga mjög áhugaverða hluti, sem við ætlum að gera góð skil. Þá munum við að sjálfsögðu halda áfram með þau veglegu viðtöl og greinar sem Monitor hefur verið þekkt fyrir. Ég hygg að móttökurnar sem blaðið hefur fengið á þeim tveim árum, sem það hefur verið gefið út, sýni fram á að það er mikil eftirspurn eftir öflugum fjölmiðli fyrir ungt fólk. Því hlutverki hefur Monitor sinnt með glans og það munum við gera áfram," segir Björn Bragi Arnarsson í tilkynningu.