Blackberry takkasíminn sem vakti mikla lukku hér á árum áður hefur nú lifað sinn síðasta söludag, en Blackberry hefur tilkynnt að það ætli að hætta að styðja við símann.

Síminn hefur ekki verið í framleiðslu frá árinu 2016, eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma. Frá og með deginum í dag, 4. janúar, mun síminn ekki virka og verður ekki mögulegt að hringja eða senda textaskilaboð með símanum, að því er fram kemur í frétt hjá Sky News .

Blackberry varð mjög vinsælt merki á farsímamarkaði þegar það hóf innreið sína á markað upp úr aldamótum og á árunum 2009-2010 var fyrirtækið komið með 20% markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Símarnir voru sérstaklega vinsælir meðal fólks í atvinnulífinu sem vildi nálgast tölvupóstinn sinn með þægilegum hætti í símanum.

Frá því að snjallsímar með snertiskjám litu dagsins ljós og stýrikerfin iOS og Android urðu meira áberandi fór staða fyrirtækisins hins vegar að breytast til verri vegar. Síðan þá hafa meðal annars Apple og Samsung fengið mikinn meðbyr á farsímamarkaði á sama tíma og Blackberry hefur átt afar uppdráttar.

Fyrirtækið ætlar að halda áfram að einbeita sér að hugbúnaðarþjónustu og að bjóða upp á öryggistól fyrir fyrirtæki og stjórnvöld. Jafnframt hefur fyrirtækið selt vörumerkið Blackberry til annarra fyrirtækja sem hafa gefið út síma byggða á vörumerkinu.