Deutsche Bank mun líklegast leggja á um 400 milljóna gjöld í tengslum við söluna á samheitalyfjafyrirtækinu Actavis, og gera það að verkum að fyrirtækið verður selt fyrir lægri upphæð en eigandi þess, Björgólfur Thor Björgólfsson, skuldar bankanum. Talið er að tilkynnt verði um kaup lyfjafyrirtækisins Watson á allra næstu dögum, jafnvel í dag.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um málið. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar nemur söluverð 4,5 milljörðum evra. Það er lægri upphæð en skuld Björgólfs við Deutsche Bank.

Erlendir fjölmiðlar hafa greint frá því að verði félagið selt fyrir hærri upphæð en sem nemur skuld eiganda við Deutsche Bank muni þeir hagnast á sölunni. Talið er að félag Björgólfs skuldi bankanum um 5 milljarða evra.