Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum hækkuðu undir lok dags í dag eftir að hafa lækkað fram eftir degi.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,5% eftir að hafa lækkað um rúm 2% fyrr í dag. Þá hækkuðu Dow Jones og S&P 500 um 0,1 en S&P 500 hafði um tíma lækkað um 3% í dag.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja hækkanir til vonar fjárfesta um að bandarísk yfirvöld setji enn meira fjármagn inn í fjármálakerfið en talið er að á næstu dögum muni stjórnvöld nýta það sem eftir er af 700 milljarða dala björgunarsjóðinn svokallaða til að auka fé banka og fjármálafyrirtækja.

Fréttastofa CNBC greindi frá því í dag að stjórnvöld myndu setja um 1-200 milljarða í Bank of America, sem nú er stærsti banki Bandaríkjanna, bæði í formi lausafjár og trygginga.

Kosið verður um nýtingu sjóðsins síðar í kvöld á Bandaríkjaþingi.

Olíuverð lækkaði hins vegar nokkuð í dag eða um 2,5% en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 34,79 Bandaríkjadali.