Sparisjóður Bolungarvíkur hefur sótt um 20% framlag úr ríkissjóði til styrkingar á eigin fé sjóðsins samkvæmt heimild neyðarlaga. Miðað við eiginfjárstöðu sjóðsins í árslok 2007 jafngildir þetta 400 milljónum króna. Sú tala miðast við að sjóðurinn fái fullt framlag.

Að sögn Ásgeirs Sólbergssonar sparisjóðsstjóra er félagið með skuldabréf skráð í Kauphöllinni og áætlar að birta uppgjör sitt í lok vikunnar.

Sparisjóður Bolungarvíkur átti 4,5% hlut í Sparisjóðsbankanum sem metinn var á einn milljarða króna fyrir ári síðan. "Öll fjármálafyrirtæki eru rústir einar og það er að drepa alla sparisjóði," sagði Ásgeir. Sjóðurinn átti eignarhluti í Saga Capital, VBS Fjárfestingabanka, Íslenskum verðbréfum og Sparisjóði Keflavíkur.