Bono, söngspíran í írsku rokkhljómsveitinni U2, á 1,5% hlut í samfélagsmiðlinum Facebook í gegnum sjóð sinn Elevation Partners. Ætla má að virði hlutafjárins nemi 1,56 milljörðum dala, jafnvirði rétt tæpra 200 milljarða íslenskra króna. Miðað er við gengið 38 dali á hvern hlut Facebook í hlutafjárútboði fyrirtækisins í gær. Miðað við það hefur hann skellt Bítilnum sir Paul McCartney í annað sætið yfir auðugustu tónlistarmenn í heimi. Eignir sir Paul McCartneys nemur á bilinu 600 til 750 milljónum dala, jafnvirði tæpra 100 milljarða króna ef allt er talið til.

Samkvæmt umfjöllun bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal fjárfesti félag Bonos í Facebook árið 2009 og greiddi fyrir hann 90 milljónir dala. Því þykir ljóst að fjárfestingin hefur margfaldast á um þremur árum.

Elevation Partners á jafnframt hlutabréf í útgáfufyrirtækinu Forbes Media, Palm og netfyrirtækinu Move.com auk þess sem nýverið var hulunni svipt af því að Elevation Partners hafi keypt hlutabréf í netskjalaskránni Dropbox.

Það er langt í frá að allt það sem Bono snerti verði að gulli. Því til staðfestingar setti félag hans 300 milljónir dala í Forbes árið 2006 og hefur það hrunið síðan þá. Þá hefur helmingurinn af 100 milljóna dala fjárfestingu Bonos í Move.com gufað upp og félagið rétt á sléttu með fjárfestinguna í Palm.

Bono var útnefndur versti fjárfestir ársins árið 2010. Ljóst er hins vegar að kaup á hlutabréfum Facebook hafa komið í bakið á þeim sem gerðu grín að rokkaranum á sínum tíma.