*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 29. júní 2020 12:55

Borgun dæmt að greiða kaupauka

Greiðslufyrirtækið þarf að greiða Sigurði Guðmundssyni 1,6 milljónir króna vegna ógreiddrar kaupaukagreiðslu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Borgun hefur verið dæmt að greiða Sigurði Guðmundssyni, fyrrum forstöðumanni alþjóðasviðs fyrirtækisins, tæplega 1,6 milljónir króna auk vaxta eftir að Landsréttur staðfesti á föstudaginn ákvörðun Héraðsdóms frá því í október á síðasta ári. Borgun þarf einnig að greiða Sigurði 800 þúsund krónur fyrir málskostnað.

Í árslok 2014 fékk Sigurður greiddar 60% af umsömdum kaupauka en greiðslu 40% fjárhæðarinnar var frestað í þrjú ár. Sá hluti kaupaukans var hins vegar ekki inntur af hendi í árslok 2017 og því höfðaði Sigurður mál á hendur Borgunar.

Deilt var um hvort fyrirtækinu hefði verið heimilt á grundvelli samningsaðila og reglna sinna um kaupaukakerfi að afturkalla þann hluta kaupauka Sigurðar sem hafði verið frestað að greiða. 

Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að með orðalagi endurkröfuákvæðis samningsaðila væri skírskotað til mælanlegra árangursviðmiða sem tiltekin væru í samningum og hvíldi á Borgun að færa sönnur á að umsömdum árangursviðmiðum hefði að betur athuguðu máli ekki verið náð. 

Taldi Landsréttur að Borgun hefði hvorki fært viðhlítandi rök fyrir því að tilskilinni frammistöðu Sigurðar og þess sviðs sem hann veitti forstöðu hefði ekki verið náð né að Borgun hefði fært nægjanleg rök fyrir því að staða hans hefði versnað verulega þótt hagnaður hans hefði dregist saman.