*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Erlent 9. júlí 2018 15:13

Boris Johnson segir af sér

Utanríkisráðherra Bretlands hefur sagt af sér en hann og Davis segja að Theresa May forsætisráðherra gefi eftir fyrir ESB.

Ritstjórn
Boris Johnson, sem áður var borgarstjóri Lundúnaborgar, hefur sagt af sér sem utanríkisráðherra.
epa

Boris Johnson sem var einn helsti talsmaðurinn fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, hefur sagt af sér sem utanríkisráðherra landsins. Kemur úrsögn hans nokkrum klukkutímum eftir að tilkynnt var um, eins og Viðskiptablaðið greindi frá, að David Davis, svokallaður Brexit ráðherra landsins sem ber ábyrgð á úrsagnarferlinu og samningaviðræðum við Evrópusambandið, hefði sagt af sér.

Báðar úrsagnirnar koma þremur dögum eftir að Theresa May forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins tilkynnti um áætlun sína um hvernig framtíðarsambandi Bretlands við sambandið skyldi háttað og að bera skyldi það undir verkamannaflokkinn sem situr í stjórnarandstöðu.

Segir Boris Johnson að áætlun May fæli í sér að Bretland yrði áfram leppríki Evrópu. Ríkisstjórnin hafði samþykkt á föstudag að áfram yrði frjáls verslun með iðnaðar og landbúnaðarvörur innan sambandsins sem byggðu á sameiginlegum reglum sambandsins. Jafnframt að Bretland yrði áfram í tollabandalagi með Evrópusambandinu.

Boris hafði sagt á fundinum fyrir helgi að áætlun May fæli í sér alvarlega hindrun fyrir fríverslun við umheiminn, en hann hafði samt sem áður stutt áætlunina. Þó líkti hann því að verja hana með því litríka orðfæri sem hann er þekktur fyrir og sagði það eins og að reyna að láta skít skína.

Davis sagði fyrr í dag að hann gæti ekki stutt áætlun May, sem fæli í sér of náið samband við ESB eftir að úrsagnarferlinu væri lokið í lok mars næstkomandi. Sagði hann að verið væri að gefa of mikið eftir gagnvart ESB of snemma í ferlinu sem væri hættulegt út frá nauðsynlegri herkænsku sem þyrfti að sýna í samningaviðræðum.

Aðrir harðir stuðningsmenn þess að úrsögn Bretlands úr ESB verði hrein og klár hafa lýst yfir áhyggjum af öðrum þáttum áætlunar May, sagt að hún þýði í raun að Bretland muni áfram þurfa að fylgja lögum og reglum ESB, úrskurðum Evrópudómstólsins og hindri að Bretland geti þróað sína eigin alþjóðlegu viðskiptastefnu.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is