*

föstudagur, 25. júní 2021
Innlent 17. nóvember 2020 16:19

Bréf Eimskips og Skeljungs hækka mest

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,75% í viðskiptum dagsins. Ávöxtunarkrafa þriggja óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði.

Ritstjórn

Annan daginn í röð hækka hlutabréf Eimskips mest eða um 2,5% í 89 milljóna króna viðskiptum. Standa bréfin í 205 krónum hvert og hafa ekki verið hærri síðan í febrúar á síðasta ári. Markaðsvirði Eimskips er um 36 milljarðar. Það er tæplega mánuður síðan Samherji boðaði yfirtökutilboð í Eimskip sem að sögn forstjóra Samherja er á genginu 175 krónur.

Næst mest hækkuðu hlutabréf Skeljungs um 1,5% í 45 milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa í 8,6 krónum en líkt og með Eimskip var boðað yfirtökutilboð í Skeljung nýlega. Tilboðið er á genginu 8,315 krónur. Hlutabréf Skeljungs hafa hækkað um tíu prósent á undanförnum mánuði.

Heildarvelta með hlutabréf í kauphöll Nasdaq á Íslandi nam 2,4 milljörðum króna í alls 379 viðskiptum. Mest velta var með hlutabréf Arion banka fyrir 764 milljónir en bréf bankans hækkuðu um prósentustig og standa í tæplega 88 krónum. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,75% og stendur í um 2.366 stigum.

Mest lækkun var á bréfum Brimar um 1,15% sem standa í rúmlega 45 krónum. Bréf Regins lækkuðu um nær prósentustig. Bréf Reita lækkuðu um 0,2% en félagið birti árshlutauppgjör í gærkvöldi. Hagnaður fyrirtækisins eftir matsbreytingar fasteigna jókst um 41% milli ára. Hlutabréf Icelandair héldust óbreytt í viðskiptum dagsins 1,36 krónum í 262 milljóna króna veltu.

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréf lækkar eilítið

Ávöxtunarkrafa þriggja óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkaði í viðskiptum dagsins. Þar ber helst að nefna RIKB 31 en ávöxtunarkrafa þeirra bréfa lækkaði um sjö punkta í nær 560 milljóna króna veltu. Fjöldi viðskipta voru fjögur. Krafan á þessum markflokki stendur í þremur prósentustigum eftir viðskipti dagsins sem er sambærileg krafa og í febrúar á þessu ári.

Ávöxtunarkrafa á óverðtryggð ríkisskuldabréf sem eru á gjalddaga árið 2028 lækkaði um þrjá punkta. Heildarvelta með markflokkinn nam tæplega 460 milljónum í alls fimm viðskiptum. Krafan stendur í 2,92% sem er sömuleiðis sambærileg krafa og var á markflokknum í febrúarmánuði á þessu ári. Einnig lækkaði ávöxtunarkrafa á óverðtryggð ríkisbréf sem eru á gjalddaga árið 2022 um þrjá punkta í 330 milljóna króna veltu.