Breskir bankar samþykktu í dag svokallaða Merlin-áætlun stjórnvalda. Samkvæmt samkomulaginu munu bankar lána fyrirtækjum þar í landi um 190 milljarða punda á þessu ári, þar af um 76 milljarða punda til smærri fyrirtækja. Englandsbanki mun sinna eftirlitshlutverki áætlunarinnar.

Samkomulagið felur einnig í sér að bankarnir greiði lægri bónusa til stjórnenda. HSBC, Barclays, Royal Bank of Scotland og Lloyds Banking Group hafa allir undirritað samninginn. Santander féllst eingöngu á hluta hans er snýr að lánveitingum.

Bónusgreiðslur hafa mikið verið ræddar í Bretlandi og þær hneykslað almenning og stjórnmálamenn. Samkvæmt frétt BBC er talið að þrátt fyrir Merlin-áætlunina greiði  bankarnir alls um 6 milljarða punda í formi bónusa á þessu ári.