Breska ríkisstjórnin tilkynnti í morgun að afnám banns á vinnslu leirsteinsgass (e. shale gas) með vökvabroti (e. fracking) sem lagt var á árið 2019. SkyNews greinir frá.

Jacob Rees-Mogg, viðskiptaráðherra Bretlands, sagði að það væri í „algjörum forgangi“ að efla orkuöryggi Bretlands í ljósi „ólöglegrar innrásar Pútín í Úkraínu og vopnavæðingu hans á orku“.

Janframt þurfi Bretar að skoða alla sína kosti í orkumálum gaumgæfilega til að þjóðin verði nettó útflytjandi á orku fyrir árið 2040. Skoða þurfi því framleiðslu á sólar- eða vindorku ásamt olíu- og gasframleiðslu.

Breska ríkisstjórnin staðfesti einnig áform um nýja leyfisveitingalotu, sem mun hefjast í október, með meira en hundrað nýjum rannsóknarleyfum fyrir olíu- og gasleit.

Lagt var bann á vinnslu með vökvabroti í Bretlandi árið 2019 eftir mótstöðu frá umhverfissinnum og fólki á landsbyggðinni sem hafði áhyggjur af smáskjálftum.