Fjöldi seldra flugmiða til Íslands frá Bretlandi jókst um 40% á fyrstu viku mánaðarins samanborið við vikuna á undan. The Times greinir frá.

Um þessar mundir flýgur Icelandair daglega til Lundúna en búist er við því að félagið mun tvöfalda þann fjölda í næsta mánuði. Jafnframt verður ferðum til Manchester bætt við síðar í sumar. Þá mun Play einnig hefja áætlanaflug til Lundúna í næstu viku.

Bandarískir ferðamenn eru þó um þessar mundir burðarás ferðamanna til landsins í kjölfar mikilla tilslakana þar í landi. Þeir voru ábyrgir fyrir ríflega tveimur þriðju af erlendri kortaveltu hér á landi í maí en til samanburðar eru Bretar í þriðja sæti með 6,5% veltunnar, á eftir Þýskalandi sem eiga 7% veltunnar.

Bókanir til áfangastaða sem eru á svokölluðum grænum lista breskra stjórnvalda hafa tekið stökk en ferðamenn þurfa ekki að fara í sóttkví við heimkomu frá löndum á þessum lista. Auk Íslands eru Ísrael og Gíbraltar á listanum en fjöldi seldra flugmiða til Gíbraltar frá Bretlandi hefur til að mynda aukist um 115%.

Portúgal var einnig á listanum og vakti mikla lukku meðal breskra ferðalanga en landið var tekið af listanum í byrjun mánaðar í kjölfar aukins fjölda smita og áhyggna af indverska afbrigði veirunnar. Í kjölfarið styttu þúsundir breskra ferðamanna dvöl sína í landinu eða hættu við að fara.