Marel tilkynnir um breytingar á framkvæmdastjórn, skipulagi og markaðssetningu sem nú verður undir einu nafni og vörumerki. Breytingunum er ætlað að styrkja markaðssókn Marel og styðja við vöxt og velgengni félagsins til framtíðar.

Úr MPS í framkvæmdastjórn Marel

Remko Rosman, forstjóri MPS, sem Marel lauk kaupum á í janúar sl., mun taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins og verða framkvæmdastjóri Marel Meat. Áætlun um fulla sameiningu MPS og Marel hefur verið hrint af stokkunum. MPS verður áfram til sem vörumerki þar til í janúar 2017 þegar það rennur að fullu inn í Marel.

David Wilson, sem áður var framkvæmdastjóri kjötiðnaðar Marel mun nú leiða fullvinnslu innan allra þriggja iðnaða Marel. Hann verður áfram í framkvæmdastjórn félagsins en með breytt starfssvið og áherslur.

Commercial er eitt af þremur sviðum Marel sem vinnur þvert á alla iðnaðina. Undir sviðið heyrir alþjóðleg starfsemi, þjónusta og vörusetur. Til einföldunar á skipulagi hefur verið ákveðið að samþætta stjórnunarhlutverk sviðsins og mun Pétur Guðjónsson nú leiða það. Sigsteinn Grétarsson sem áður leiddi Viðskipta- og sölusviðið kveður Marel.

Þrjár rekstarniðurstöðu í stað fjögurra

Marel mun í framtíðinni birta rekstrarniðurstöður fyrir þrjá iðnaði í stað fjögurra áður. Viðskiptavinir Marel munu vinna með Marel Poultry, Marel Meat og Marel Fish. Fullvinnsla verður til áfram sem eining innan Marel sem mun vinna þvert á iðnaðina þrjá: kjúkling, kjöt og fisk. Allir iðnaðir Marel eru nú sameinaðir undir vörumerki Marel, með eitt slagorð og endurskilgreinda framtíðarsýn og gildi.