Fjárfestingarfélagið Brimgarðar ehf. er samkvæmt flöggunartilkynningu til Kauphallarinnar orðið stærsti eigandi Eikar með 10,1% hlut eftir að hafa keypt um þrjár milljónir hluta í Eik. Félagið á nú tæplega 345 milljónir hluta í Eik sem metnir eru á um 2,6 milljarða króna.

Brimgarðar eiga 7,2% hlut beint í Eik en 2,8% hlut í gegnum framvirkan samning.

Þann 27. febrúar síðastliðinn voru Brimgarðar þriðji stærsti hlutahafi Eikar með um 6,9% hlut á meðan Lífeyrissjóður verslunarmanna á um 8,8% og Almenni lífeyrissjóðurinn 7,9% samkvæmt yfirliti Kauphallarinnar yfir 20 stærstu eigendur.

Eigendur Brimgarða eru systkinin Eggert Árni, Guðný Edda, Gunnar Þór og Halldór Páll Gíslabörn. Auk þess að vera stærsti eigandi Eikar áttu Brimgarðar um síðustu mánaðarmót um 2,9% hlut í Reginn, 2,3% hlut í Reitum og 1,2% hlut í Heimavöllum.