Bandaríska tæknifyrirtækið Broadcom, sem framleiðir flögur í raftæki, hefur ákveðið að kaupa hugbúnaðarfyrirtækið VMware fyrir tæplega 9 þúsund milljarða íslenskra króna, að meðtöldum skuldum. Yfirtakan er talin merki þess að markaðurinn fyrir samruna og yfirtökur stórfyrirtækja sé að taka við sér eftir erfiða byrjun á árinu, segir í frétt Financial Times.

Sjá einnig: Broadcom að kaupa VMware

Hluthöfum VMware mun bjóðast að fá annað hvort 18.500 íslenskar krónur í reiðufé eða 0,252 hlutabréf í Broadcom fyrir hvern hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu, það er 33% hærra en verðmat fyrirtækisins áður en fyrirtækin komust að samkomulagi í síðustu viku.

Yfirtakan er fjármögnuð með rúmlega 4 þúsund milljörðum íslenskra króna frá bönkum en hún mun þróa Broadcom yfir í að vera fjölbreyttara tæknifyrirtæki. Há framlegð VMware og stöðugar tekjur gerðu Broadcom kleift að fjármagna stóra yfirtöku sem verður síðan hægt að greiða niður nokkuð hratt.

Hock Tan, malasíski-ameríski milljarðamæringurinn sem stýrir Broadcom, hefur verið í leit að hugbúnaðarfyrirtæki til að kaupa í mörg ár. Hann komst nálægt því að kaupa fyrirtækið Qualcomm árið 2018 en þáverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, kom í veg fyrir söluna vegna áhyggja af þjóðaröryggi.