Bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Broadcom á í viðræðum um kaup á Vmware. Broadcom er rótgróið tölvufyrirtæki sem framleiðir örgjörva og hugbúnað, en Vmware hefur sérhæft sig í skýjalausnum og hugbúnaði fyrir sýndarveruleika.

Kaupverðið er talið vera í kringum 60 milljarða Bandaríkjadala, um 7.800 milljarða króna, samkvæmt heimildum Wall Street Journal. Samkvæmt WSJ sýnir þetta að þrátt fyrir mikla ólgu á hlutabréfamörkuðum sé enn hægt að gera stórviðskipti.

Áætlað er að yfirtakan verði tilkynnt á morgun, fimmtudag, og mun Broadcom bæði greiða í formi reiðufjár og hlutafjár að verðmæti 140 dali á hlut. Yfirtaka Broadcom á Vmware yrði ein sú allra stærsta á þessu ári, en yfirtaka Microsoft Corp. á tölvuleikjaframleiðandanum Activision Blizzard Inc. á 75 milljarða Bandaríkjadala er stærsta yfirtaka ársins til þessa.

Bréf Vmware ruku upp

Hlutabréfaverð í Vmware hækkaði um 25% á mánudaginn, þegar fréttir bárust af viðræðunum og kaupverðinu. Gengi bréfa félagsins stendur í 118,5 krónum á hlut og markaðsvirði félagsins orðið meira en 50 milljarðar dala.

Hlutabréfaverð í Broadcom lækkaði um 3% við fréttirnar á mánudag og er markaðsvirði félagsins orðið 215 milljarðar dala.

Michael Dell, stofnandi Dell tölvufyrirtækisins, á stóran hlut í Vmware. Hann mun fá 20 milljarða dala í sinn vasa ef yfirtakan gengur í gegn, að því er kemur fram í grein hjá Telegraph.