Verslunin Kastanía hefur verið seld og mun á næstunni færast af Höfðatorgi í Kringluna. Bryndís Björg Einarsdóttir og Ólína Jóhanna Gísladóttir hafa rekið verslunina í rúm þrjú ár.

Pétur Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri S4S, kaupir verslunina. Samhliða rekur hann S4S sem á meðal annars skóverslanirnar Steinar Waage, Skór.is, Kaupfélagið og Ecco. „Það verða ákveðnar áherslubreytingar á versluninni“, segir Pétur. „Henný Sif Bjarnadóttir mun reka og eiga verslunina með mér.“ Hann segir flest vörumerki verða áfram seld í versluninni en þó ekki öll. Kastanía hefur sérhæft sig í sölu á fylgihlutum.

Verslunin mun loka á Höfðatorgi um mánaðamótin en opnar aftur í Kringlunni 1. mars að sögn Péturs. Hún verður staðsett í sama rými og skóbúðin Kaupfélagið. Því rými verður skipt upp í tvær verslanir þar sem Kastanía og Kaupfélagið verða þó reksturinn sé aðskilinn. Pétur segir rekstur Kastaníu hafa gengið vel og því verði ekkert annað gert en að bæta í.