Það er ekki á hverjum degi sem fjárfestirinn frægi Warren Buffet undirritar kaupsamninga íklæddur leðurjakka en sú var raunin þegar félag hans, Berkshire Hathaway, festi kaup á þýska félaginu Detlev Louis Motorradvertriebs í dag. Félagið sérhæfir sig í sölu á fylgihlutum fyrir mótorhjólaeigendur og hefur höfuðstöðvar sínar í Hamborg í Þýskalandi.

„Það er ekkert sem jafnast á við kaupsamning til að fanga athygli fólks,“ sagði Buffet á blaðamannafundi í tengslum við kaupin. „Þetta er aðeins smærri samningur en við erum vön en hann opnar ýmsar dyr fyrir okkur.“ Kaupverð félagsins var um 400 milljónir evra.

Louis er með 71 verlun í Þýskalandi og í Austurríki auk þess sem að það selur vörur víðsvegar um heiminn í gegnum netið. Um 1.600 manns starfa fyrir fyrirtækið sem hefur um 270 milljónir evra í árstekjur. Í tilefni samningsins sagði Buffet að Evrópa væri frábær staður til að stunda viðskipti. „Evrópa hefur hundruðir milljóna íbúa og háar tekjur. Bandaríkin eru mín fyrsta ást en ég sé mikla möguleika fyrir okkur í Evrópu,“ sagði Buffet.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .