Milljarðamæringurinn Warren Buffet fagnar 82 ára afmæli sínu í dag. Í tilefni þess hefur hann ákveðið að gefa milljarða bandaríkjadala til góðgerðarstarfs barna sinni þriggja, þeirra Susie, Howie og Peters. Þetta kemur fram á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal í dag.

Í bréfi sem Buffet sendi börnum sínum hét hann því að tvöfalda styrkinn sem hann hefur veitt góðgerðarfélögunum í formi hlutabréfa í félaginu Berkshire Hathaway.

Í bréfi Buffet til barna sinna segir meðal annars í lauslegri þýðingu:

„Nú eru sex ár liðin síðan ég gaf 17.500.000 Berkshire B hlutabréf til góðgerðarfélaga hvers og eins ykkar. Ég vissi að þið mynduð nýta allt ykkar hugvit og orku til að nýta þessa fjármuni sem best. Þið hafið hins vegar farið fram úr mínum björtustu vonum. Móðir ykkar væri eins stolt af ykkur eins og ég. Ég sé áhrif hennar í öllu því sem þið afrekið. “

Fréttina og bréfið í heild sinni má lesa hér .