Stórir bankar í Bretlandi birta milliuppgjör sín í næstu viku og að sögn WSJ er búist við góðum hagnaði líkt og sást í tölum bandarískra banka og annarra nýlega. Þetta mun stafa af vexti í tekjum af fjárfestingabankastarfsemi. Sumir bankar munu þó standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort að viðvarandi slæm lán á bókum þeirra muni stöðva jákvæða þróun á seinni hluta ársins.

Barclays  ríður á vaðið í vikunni með uppgjöri á mánudag. Bankinn hefur sótt hratt fram í fjárfestingabankastarfsemi frá því hann keypti starfsemi Lehman Brothers í Norður-Ameríku í fyrra í gegnum félag sitt Barclays Capital.

WSJ segir að Barclays og fleiri sjái vöxt í hefðbundinni fjárfestingabankastarfsemi, þ.e. að leiða saman kaupendur og seljendur gjaldmiðla og hrávöru, auk fjármálaafurða sem gefi fjárfestum kost á að veðja á hvert vaxtastigið stefni. Þá hafi fjölgað viðsiptavinum sem vilji afla fjár með útgáfu skuldabréfa eða með öðru móti.

Greinendur gera einnig ráð fyrir jákvæðu uppgjöri hjá Royal Bank of Scotland Group, sem breska ríkið á 70% hlut í eftir björgunaraðgerðir vegna hrunsins. Bankinn birtir uppgjör sitt á föstudag.

Meiri svartsýni ríkir um Lloyds Banking Group, sem er ekki með mikla heildsölubankastarsemi. Litið framhjá einskiptishagnaði er bankanum spáð tapi á fyrri helmingi ársins.

Rétt er að hafa í huga í væntanlegum uppgjörum banka að þegar verðmæti skulda þeirra sjálfra hækkar, þá færa þeir það inn í bækur sínar sem gengistap. Þetta stafar af því að það verður dýrara fyrir bankann að kaupa skuldir sínar til baka. Með sama hætti gátu bankarnir skráð hagnað þegar verðmæti skulda þeirra rýrnaði. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að Barclays tapi 800 milljónum punda á auknu verðmæti skulda sinna, en á fyrsta fjórðungi hagnaðist bankinn um 279 milljónum punda þegar verðmæti skuldanna rýrnaði.