Gert er ráð fyrir 329 milljóna króna afgangi af rekstri Reykjavíkurborgar á næsta ári, samkvæmt frumvarpi til fjárhagsáætlunar borgarinnar fyrir næsta ári og fimm ára áætlun fyrir árin 2013 til 2017. Frumvarpið var kynnt í dag. Forsendur áætlunarinnar er mikil niðurgreiðsla skulda til loka árs 2017.

Fram kemur í áætluninni að gert sé ráð fyrir 7,6 milljarða króna afgangi hjá samstæðu borgarinnar, sem skiptist upp í A- og B-hluta. Í B-hlutanum eru fyrirtæki í eigu borgarinnar, þar á meðal Orkuveita Reykjavíkur og er viðamesti hlutinn.

Þá kemur fram í áætluninni, að borgin hyggist verja tæpum sjö milljörðum króna til fjárfestinga á næsta ári. Þar á meðal munu gagngerar endurbætur á Hverfisgötu hefjast á því ári.

Þá kemur fram í áætluninni að rúmur helmingur útgjalda aðalsjóðs borgarinnar fari til skóla- og frístundamála. Á næsta ári verði auknu fjármagni veitt til sérkennslu og afleysingahlutfall í leikskólakennslu verður fært til þess horfs sem var fyrir hrun.

Áætlað er að afkoma samstæðunnar batni um 5,6 milljarða króna allt tímabilið fram til ársloka 2017 og að hún muni skila jákvæðri niðurstöðu allt tímabilið.

Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar