Yfirvöld í Sádi-Arabíu tóku 47 fanga af lífi í morgun fyrir glæpi tengda hryðjuverkum. Breska blaðið Independent greinir frá þessu. Innanríkisráðherra konungsveldisins sagði að á meðal þeirra sem teknir hefðu verið af lífi hafi verið sjía klerkurinn Nmir al-Nimr. Al-Nimr var handtekinn fyrir tveimur árum. Hann hafði um árabil talað fyrir réttindum sjía múslíma í Sádi-Arabíu og gagnrýnt konungsstjórnina opinberlega.

Engar opinberar tölur um aftökur í Sádi-Arabíu eru gefnar út en ýmis mannréttindastamtök, eins og til dæmis Amnesty International, reyna að afla sér upplýsinga. Samkvæmt þeim voru 157 manns tekin af lífi í fyrra, árið 2015, og hafa ekki fleiri verið teknir af lífi í tvo áratugi eða síðan 1995.