Enskir háskólar safna nú fé hjá fyrrverandi nemendum til að auka samkeppnishæfni sína.

New Hall, sem er hluti Cambridgeháskóla á Englandi, hefur nefnt þann hluta skólans í höfuðið á fyrrverandi nemanda sem gaf 30 milljónir punda til skólans. New Hall mun framvegis heita Murray Edwards College, í höfuðið á Ros Edwards sem gaf féð, og Rosemary Murray sem er stofnandi skólans. BBC segir frá þessu.

Frú Edwards nam við Cambridge á níunda áratugnum. Hún hagnaðist vel er hún seldi hugbúnaðarfyrirtæki sitt fyrir 700 milljónir punda.

„Við þurfum að standa við bakið á háskólunum okkar svo að þeir geti keppt við hina bandarísku, sem njóta mikilla styrkja,“ sagði Edwards. „Cambridge mun aðeins geta veitt gæðamenntun áfram ef skólanum er gert kleift að keppa á jöfnum grundvelli.“ Cambridge hefur ásamt Oxford hrundið af stað herferð til að fá fyrrverandi nemendur til að leggja fjármuni af mörkum til reksturs skólans, en algengt er að fyrrverandi nemendur bandarískra háskóla geri slíkt.

Báðir skólanir hyggjast safna að minnsta kosti einum milljarði punda í þessu átaki. Christ Church College við Oxford voru nýlega gefnar 25 milljónir punda frá fyrrverandi nemanda sem nam nútímasögu við skólann á áttunda áratugnum.