Álframleiðandinn Century Aluminum segir hættu á að loka þurfi álveri í Suður-Karólínu náist ekki hagstæðir orkusamningar. Þetta kemur fram í bréfi fyrirtækisins til starfsmanna.

„Mt. Holly er nýjasta, skilvirkasta - og sé orkukostnaður ekki talinn - ódýrasta orkuver í Bandaríkjunum," sagði forstjóri Century, Michael Bless. „Við höfum samið við orkuveitu, en eigum enn í samningaviðræðum við Santee Cooper um ásættanlegt verð fyrir orkuflutninginn til Santee Cooper."

Bless segir tímann á þrotum, og komist ekki á niðurstaða um verð á orkuflutningnum mun álbræðslan loka um áramótin, 31. desember. Forstjórinn segir að alls hafi 2.000 manns atvinnu sína, beint eða óbeint, af álverinu og að hagræn áhrif þess á svæðið nemi um 945 milljónum dala, eða um 120 milljarða íslenskra króna.

Viðskiptablaðið fjallaði um Century Aluminum nýlega en fjármálavefsíðan Seeking Alpha skrifaði um að fyrirtækið, sem er móðurfyrirtæki íslenska álvinnslufyrirtækisins Norðuráls, gæti stefnt í mikla efnahagslega erfiðleika og jafnvel gjaldþrot.