Íþróttaveðbankinn Coolbet hefur opnað stuðla fyrir forsetakosningarnar í sumar. Af stuðlunum að dæma er Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra líklegust, en stuðullinn er 2,50 þegar þetta er skrifað.

Það þýðir að sá sem veðjar 1.000 krónur á Katrínu fær 2.500 krónur til baka og þar af leiðandi 1.500 krónur í hagnað.

Baldur Þórhallsson prófessor hefur mælst með jafn mikið fylgi og Katrín í síðustu könnunum, en stuðullinn er 3,15 á að hann hreppi hnossið.

Halla líklegri en Jón og Steinunn líklegri en Halla

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri tilkynnti framboð í síðustu viku og er í þriðja sæti veðbankans sem líklegasti frambjóðandinn. Jón Gnarr leikari og fv. borgarstjóri kemur þar á eftir. Þá er Steinunn Ólína talsvert líklegri en Halla Tómasdóttir ef marka má stuðla Coolbet.

Coolbet er nokkuð sammála nýjustu könnun Prósents, sem framkvæmd var fyrir Morgunblaðið dagana 9. - 14. apríl. Þar mældist Baldur með 25,8% fylgi og Katrín 22,1% fylgi, en fylgismunur þeirra er ekki tölfræðilega marktækur.

Í könnuninni mældist Jón Gnarr með 16,8% fylgi og Halla Hrund með 10,6%, en Coolbet telur Höllu líklegri en Jón eins og sjá má á stuðlunum hér að neðan.

© Aðsend mynd (AÐSEND)