*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 26. maí 2018 11:09

Costco með 10% markaðshlutdeild?

Vöruhús og bensínstöð Costco í Kauptúni gæti verið að velta álíka miklu og allar verslanir Krónunnar á öllu landinu.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Áætlað er að markaðshlutdeild Costco á íslenskum smásölumarkaði höfuðborgarsvæðisins sé allt að 10%. Miðað við það ætti ársvelta vöruhúss og bensínstöðvar Costco í Kauptúni að vera í kringum 30 milljarðar króna. Er það svipuð velta og velta verslana Samkaupa og Krónunnar á öllu landinu. 

Þetta er mat Kjartans Örns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Verslanagreiningar. Mat Kjartans byggir á stærð vöruhússins í Kauptúni (sem er 14 þúsund fermetrar, en meðalstærð á vöruhúsum Costco er 13 þúsund fermetrar), hlutfallslegan fjölda viðskiptavina Costco hér á landi, veltu á eldsneytismarkaði og þróunina á erlendum mörkuðum.

Vöruhús Costco eru að meðaltali 13 þúsund fermetrar og veltir hver verslun að jafnaði 17,4 milljörðum króna. Velta íslenska smásölumarkaðarins nam rúmlega 456 milljörðum í fyrra. Sé tveir þriðju veltunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samræmi við vægi íbúafjölda landsins á höfuðborgarsvæðinu, jafngildir meðalvelta Costco vöruhúss um 6% af markaði höfuðborgarsvæðisins. Kjartan segir að áætla megi að velta vöruhúss og bensínstöðvar Costco í Kauptúni sé þó yfir alþjóðlega meðaltalið.

Ráðgjafafyrirtækið Zenter gaf út skýrslu árið 2016 þar sem spáð var að Costco myndi umturna íslenskri verslun. Skýrsluhöfundar Zenter spáðu, meðal annars út frá könnunum og reynslu annarra markaða, að árlegur fjöldi viðskiptavina Costco á Íslandi yrði 50 þúsund í mesta lagi, eða 15% íbúafjöldans. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur ásókn Íslendinga í Costco þó verið vel umfram væntingar. Þremur mánuðum eftir opnun Costco höfðu 90 þúsund aðildarkort verið seld og í janúar sögðust 71% Íslendinga eiga Costco-kort samkvæmt könnun MMR. Stjórnendur Costco hafa sagt að opnun Costco hér á landi hafi verið sú stærsta fyrir fyrirtækið í nýju landi miðað við höfðatölu. 

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins í samrunamáli Haga og Lyfju áætlaði Samkeppniseftirlitið að markaðshlutdeild Costco, leiðrétt fyrir „opnunaráhrifum“, sé á bilinu 5-10% á dagvörumarkaði höfuðborgarsvæðisins. Á sama tíma gæti markaðshlutdeild Haga hafa lækkað niður í allt að 45%, en árið 2014 var hlutdeild Haga um 54%. Fyrstu vikuna eftir opnun Costco var hlutdeild verslunarinnar á dagvörumarkaði þriðjungur samkvæmt gögnum Meniga.

Miðað við áætlun Samkeppniseftirlitsins um veltu dagvörumarkaðarins árið 2014 (130 milljarðar króna), verðbólguþróun, fólksfjölgun og útgjöld ferðamanna til dagvöru má áætla að velta dagvörumarkaðarins hafi numið 156,3 milljörðum á síðasta ári. Um helmingur veltunnar fellur til á höfuðborgarsvæðinu. Sé Costco með 10% markaðshlutdeild á dagvörumarkaði nemur velta Costco á þeim markaði um 7,8 milljörðum króna.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er markaðshlutdeild bensínstöðvar Costco í Kauptúni yfir 10% á bensínmarkaði höfuðborgarsvæðisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: velta smásala Costco bensín heildsala