I.Á. Hönnun, móðurfélag Skagans 3X, tapaði 268 milljónum á síðasta ári miðað við 234 milljóna hagnað árið 2019. Velta samstæðunnar, sem þróar tæknilausnir í fiskvinnslu, dróst saman um tæpan helming milli ára, úr 7,5 milljörðum króna í ríflega 4,1 milljarð króna vegna áhrifa heimsfaraldursins.

Framleiðslukostnaður dróst einnig saman um helming, úr 4,9 milljörðum í 2,4, en rannsóknar- & þróunarkostnaður jókst lítillega og nam 906 milljónum. Heildareignir félagsins í lok síðasta árs námu 7 milljörðum króna og eigið fé 3,15 milljörðum, sem gerir 45,2% eiginfjárhlutfall.

Greidd laun námu tæpum 1,7 milljarði og drógust saman um 23% milli ára, og dreifðust á 206 ársverk sem var 20% samdráttur milli ára. Meðallaun námu því 680 þúsund krónum á mánuði og lækkuðu um 3,8% milli ára.

Í október í fyrra gerði þýska félagið Baader kaupsamning við I.Á. Hönnun um 60% hlut í Skaganum 3X, sem tók gildi í byrjun þessa árs.