Tina Brown, stofnandi og ritstjóri netmiðilsins The Daily Beast greindi frá því í dag að bandaríska vikuritið Newsweek muni á næsta ári aðeins verða aðgengilegt á Netinu og hætta að koma út í prentuðu formi. Síðasta prentaða tölublað Newsweek kemur út á Gamlársdag.

Fyrsta tölublað Newsweek leit dagsins ljóst árið 1933 og hefur það um árabil verið næststærsta vikurit Bandaríkjanna á eftir Time. Það er gefið út í fjórum mismunandi útgáfum innan hins enskumælandi heims auk tólf útgáfa í öðrum löndum til viðbótar. Tekjur blaðsins hafa dregist talsvert saman í gegnum tíðina og útgáfa þess skilað 40 milljóna dala tapi á ári hverju. Þá hefur verulega dregið úr sölu blaðsins. Það kom út í rúmlega 3,1 milljón eintaka árið 2001. Um mitt þetta ár voru eintökin helmingi færri.

Newsweek var á árum áður í eigu útgáfufélagsins The Washington Post Company. Stjórnendur þess ákváðu hins vegar að selja það í skugga tekjusamdráttar í ágúst árið 2010. Blaðið sameinaðist útgáfufyrirtæki The Daily Beast í nóvember sama ár og hefur Tina Brown sinnt ritstjórn beggja miðla jöfnum höndum. Breytt eignarhald á blaðinu og þróunin kemur glögglega í ljós þegar smellt er á hlekk Newsweek.com en við það fara netverjar á undirsíðu The Daily Beast .

Netútgáfa Newsweek mun eftirleiðis nefnast Newsweek Global og þurfa netverjar að kaupa aðgang að blaðinu.