Danska fjármálaeftirlitið segir stjórnendur Danske Bank þurfa að bæta eiginfjárstöðu bankans og afla honum 75 milljarða danskra króna, jafnvirði 1.700 milljarða íslenskra króna. Ekki gefst langur tími til peningaöflunarinnar en eftirlitið gefur bankanum frest fram til loka árs.

Danske Bank var einn þriggja banka sem eftirlitið skoðaði. Rannsókn á fjárhagsstöðu þeirra lauk í júní í fyrrasumar. Ekki var hins vegar upplýst um það á sínum tíma um hvaða banka var að ræða.

Fjárhagsvandi Danske Bank á rætur að rekja til slæmrar stöðu tveggna banka hans á Írlandi. Bankinn varð að færa sjö milljarða danskra króna á afskriftareikning vegna þeirra. Á vef danska viðskiptablaðsins Börsen segir að staða eignasafns írsku banka Danske Bank sé ekki góð og megi reikna með að færa þurfi verðmæti eignasafnsins meira niður.