Fyrir tveimur vikum lækkaði Seðlabankinn stýrivexti í 12% úr 15,5%. En í dag voru þeir hækkaðir í 18%.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Roed-Frederiksen, hagfræðingi Nordea, að slíkur viðsnúningur sé ekki til að auka tiltrú á stjórnvöldum.

Viðskiptablaðið spurði Davíð Oddsson seðlabankastjóra hvort hann óttaðist álitshnekki innan alþjóðasamfélagsins.

„Það má vel vera. Það sér nú ekki á svörtu í augnablikinu. Þannig að við tökum því bara vel,“ svaraði hann á blaðamannafundi í dag.

Davíð sagði að það hefðu ekki verið mistök að lækka vexti fyrir tveimur vikum. „Það var rökstutt,“ sagði hann.

Frá þeim tíma hefur gjaldeyrismarkaðurinn lamast.

„Það er eitt það alvarlegasta sem þjóðfélag getur lent í og þá verður að grípa til þeirra ráða sem menn hafa,“ sagði Davíð.