Samningaviðræður milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Kína um gjaldmiðlaskiptasamning hófust vorið 2008 þegar Davíð Oddsson var einn þriggja seðlabankastjóra og formaður bankastjórnar. Már Guðmundsson núverandi seðlabankastjóri sagði á fundi með blaðamönnum að samningurinn, sem kynntur var í morgun, ætti sér því langan aðdraganda.

Már sagði að rætt hefði verið um svona samning í samskiptum forseta ríkjanna, sem hann sagði að viðkomandi embætti gætu sagt betur frá. Þekkt er að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur átt góðan aðgang að kínverskum ráðamönnum og meðal annars hitt forseta Kína í ferðum sínum. Már sagði að þessi mál hefðu verið unnin á vettvangi forsætisráðuneytisins og vorið 2008 hefðu viðræður milli seðlabankanna hafist.

Megin tilgangur samningsins er að greiða fyrir viðskiptum á milli landanna og að engar aðrar myntir þurfi að koma til en íslenskar krónur og kínverk júan þegar þau eru gerð.