Fjárhagsvandræði bandarísku bílarisanna hefur margþætt áhrif í samfélaginu og nú eru styrkir General Motors Corp. við kappakstur í uppnámi.

Bílarisinn GM hefur síðan snemma á áttunda áratugnum verið einn helsti styrktaraðili bíla og trukkakappaksturs NASCAR. Þar á meðal er Daytona 500 kappaksturinn sem er eitt helsta aðalsmerki NASCAR.

Fyrirhugað er að halda næsta Daytona 500 kappaksturinn þann 15. febrúar 2009, en það er nú í uppnámi þar sem ekki hafa náðst samningar um styrk frá hinum skuldum hlaðna bílarisa GM.

Samningur um styrk GM rennur út þann 31. desember og segir Jan Thomas, talsmaður GM, á Autos insider vefsíðu The Detroit News, að viðræður hafi ekki skilað neinni niðurstöðu.

GM hefur m.a. lagt til öryggisbíla sem og slökkvi- og sjúkrabíla á kappakstursmótum NASCAR eða National Association for Stock Car Auto Racing eins og það heitir. Nú standa forsvarsmenn GM grátklökkir á tröppum Hvíta hússins í von um að Bandaríkjaforseti sjái aumur á bandarískum bílaiðnaði eftir höfnun þingsins á 14 milljarða dala láni þeim til handa.

Fleiri en NASCAR hafa þurft að bíta í súru epli peningaleysis GM, því hafnarboltaliðið Pittsburgh Pirates hefur misst sinn árlega styrk frá GM. Sömu leiðis hefur endi verið bundinn í styrkveitingar GM til hins heimsfræga PGA golfara Tiger Woods. Einnig vegna auglýsinga á Super Bowl XLIII og vegna Emmy Awards verðlaunahátíðarinnar 2009, Academy Awards og fleiri viðburða.