Franski leikarinn Gérard Depardieu kynnti í vikunni nýja línu af lúxus armbandsúrum sem eru sérstaklega markaðssett fyrir þjóðholla Rússa, en Depardieu varð í janúar á þessu ári rússneskur ríkisborgari. Línan, sem er hönnuð af svissneska úraframleiðandanum Custos, ber heitið "Stoltur af því að vera rússneskur". Á úrinu er rússneskur tvíhöfða örn, sem er vísun í skjaldarmerki rússnesku keisaranna, og munu ódýrustu úrin kosta um 15.000 svissneska franka, eða um 1,9 milljónir króna.

Áform Depardieu voru fyrst kynnt í mars á þessu ári, en ekki er hægt að segja að tímasetning útgáfunnar hafi verið heppileg. Rússneska rúblan er í frjálsu falli og þeim fer ört fækkandi rússunum sem hafa efni á lúxusvarningi sem greiða þarf fyrir í erlendum gjaldeyri. Depardieu sagði hins vegar á blaðamannafundi að Rússar ættu ekki að hafa áhyggjur. Lúxus væri ekki byggður á rúblunni, heldur á andlegum styrk Rússa.

Depardieu hefur verið dyggur stuðningsmaður Vladimírs Pútin allt frá því að hann fékk rússneska ríkisborgararéttinn. Hann tók þá ákvörðun að flýja Frakkland eftir að ríkisstjórn François Hollande ákvað að leggja 75% skatt á tekjur yfir einni milljón evra á ári. Hætt var við þau áform eftir að þau voru talin brjóta gegn frönsku stjórnarskránni, en Depardieu flutti engu að síður úr landi.