Veðurstofa Íslands hefur samið við sprotafyrirtækið Designing Reality um notkun á byltingarkenndum hugbúnaði sem býr til þrívíddarlíkön úr ljósmyndum. Samningur þessa efnis var undirritaður í síðustu viku, þ.e. 17. maí síðastliðinn.

Fram kemur í tilkynningu að markmið samningsins verði að móta ramma um þróunarsamstarf á milli Veðurstofunar og Designing Reality um notkun á ljósmyndum við gerð þrívíddarlandlíkanna.  Með hugbúnaðinum 3D REALITY, sem fyrirtækið Designing Reality hefur þróað, er hægt að búa til hágæða þrívíddar-landlíkön sem nýtast til landmælingar. Í stuttu máli þá umbreytir hugbúnaðurinn hefðbundum ljósmyndum í þrívíddarlíkan. Með því að bæta staðsetningargögnum inn í líkanið þá er hægt að nýta það til mjög nákvæmra landmælinga. Í staðinn fyrir að nota hefðbundar loftmyndir eða gögn sem eru fengin með laserbúnaði, þá er hægt að nýta venjulegar ljósmyndir, bæði úr lofti og láði, inn í hugbúnaðinn. Myndunum er breytt í hágæða þrívíddarlíkan ásamt því að búa til hefðbundin landmælingagögn á örskömmum tíma.

Hlutverk Veðurstofu Íslands er vöktun lofts, láðs og lagar með öflun, gæðaeftirliti, varðveislu og greiningu upplýsinga ásamt rannsóknum byggðum á þeim. Sömuleiðis miðlar Veðurstofan  upplýsingum og þjónustar notendur. Þá segir í tilkynningunni að ljóst sé að lausn Designing Reality nýtist Veðurstofu Íslands til að uppfylla mörg þessi hlutverk á enn skilvirkari hátt en áður.

Nú þegar hefur Designing Reality komið að verkefnum Veðurstofunnar við vatnamælingar og snjóflóðarannsóknir.