Íslenska ferðatæknifyrirtækið sótti sér fjármagn í upphafi þessa árs að fjárhæð 5 milljónir evra, eða nærri 750 milljónir króna, í formi skuldabréfs og 2,5 milljónir evra, eða um 375 milljónir króna, í formi hlutafjár.

„Þessi fjármögnun er ætluð til þess að geta sótt hraðar fram á markaðinn þar sem eftirspurn eftir þjónustu og hugbúnaðarlausnum Dohop er töluverð um þessar mundir,“ segir í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra í ársreikningi félagsins.

Tekjurnar þrefölduðust en áfram tap

Dohop, sem þróar og rekur tæknilausnir fyrir ferðaiðnaðinn, tapaði 925 milljónum króna árið 2022 samanborið við 761 milljónar tap árið 2021 en Covid-faraldurinn hafði mikil áhrif á reksturinn.

Tekjur Dohop námu 1,1 milljarði króna, samanborið við 318 milljónir árið áður, og hafa aldrei verið meiri. Í skýrslu stjórnar segir að 244% tekjuaukning verði að teljast sigur fyrir ekki stærra félag á viðkvæmum markaði. „Væntingar um tekjuvöxt á næsta ári eru töluverðar.“

Eignir Dohop voru bókfærðar á 1,1 milljarð króna í árslok 2022 og eigið fé var um 286 milljónir.

Hluthafar félagsins voru 82 í árslok 2022. Breski fjárfestingarsjóðurinn Scottish Equity Partners (SEP) er stærsti hluthafinn með 46,2% hlut. Jón Von Tetzchner kemur þar næstur með 7,2% hlut í gegnum félagið Vivaldi Ísland. Þá á Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins 4,6% og Frosti Sigurjónsson, sem stofnaði Dohop, á 4,4% hlut.

Greinin birtist í Viðskiptablaði vikunnar.