Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn níu starfsmönnum Kaupþings hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun. Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Sigurður Einarsson eru allir í hópi hinna ákærðu, en þeir voru nýlega sakfelldir í Al-Thani málinu svokallaða.

Pétur Kristinn Guðmarsson, sem jafnframt er meðal hinna ákærðu, hóf skýrslugjöf sína fyrir dómi núna áðan, en hann var verðbréfasali hjá eigin viðskiptum Kaupþings. Við upphaf skýrslugjafarinnar fór saksóknari fram á að Pétur tæki sæti í vitnastúku, en sjálfur vildi hann sitja við hlið verjanda síns. Þessu hafnaði Arngrímur Ísberg dómsformaður, að því er segir í frétt Vísis .

Fór saksóknarinn þá fram á að sakborningurinn fengi ekki að hafa tölvu opna fyrir framan sig þar sem hann kynni að vera þar með tilbúin svör. Sagði dómsformaðurinn þá að málsaðilar yrðu að treysta verjanda til þess að sakborningur hefði ekki eitthvað fyrir framan sig sem ekki mætti.

„Ákærði ræður því sem hann segir, hann á náttúrulega að segja satt, en það er reyndar afstætt hugtak,” hefur Vísir eftir dómsformanninum. Svaraði saksóknari því þá að sannleikurinn væri ekki afstætt hugtak.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin standi yfir í mánuð en í heildina munu 50 vitni gefa skýrslu fyrir dómi.