Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu hins endurreista Landsbanka um að líta beri á 150 milljóna króna fyrirtækjalán sem erlent lán heldur taldi dómarinn að líta beri á lánið sem gengistryggð lán í krónum sem sé ólögmætt.

Eignarhaldsfélagið Motormax tók lánið árið 2007 en það hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri bússins taldi að lánið væri gengistryggt lán í krónum en bankinn að um lán í erlendri mynt væri að ræða.Nokkur óvissa er um gengistryggð lán fyrirtækja en nýlegir dómar hafa fallið á þá leið að lánasamningar, sem lánastofnanir hafa litið á sem lán í erlendri mynt, hafa fallið á þá leið að um sé að ræða gengistryggð lán í krónum.

Að því er fram kom í fréttum RÚV hyggst Landsbankinn áfrýja dómnum til Hæstaréttar vegna fordæmis sem dómurinn kann að hafa á sambærilega lánasamninga.