Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur lagt til við bæjastjórn að dregið verði úr hópi umsækjenda, sem uppfyllt hafa þau skilyrði sem sett eru í reglum um úthlutun lóða hjá Hafnarfjarðarbæ, á bæjarstjórnarfundi þann 22. mars 2005 kl. 17.00. Alls bárust 1180 umsóknir frá einstaklingum um lóðirnar. Bæjarráð hefur ákveðið að sé um hjón eða sambýlisfólk að ræða gildi ein umsókn í nafni beggja.

Umsækjendur geta verið viðstaddir útdráttinn eða fylgst með honum í útvarpinu á tíðninni fm 96,2. Bæjarstjórnarfundurinn verður haldinn í Hafnarborg Strandgötu 34, gengið inn frá Strandgötu.

Bæjarstjórn dregur jafn mörg nöfn úr hópi umsækjenda og fjöldi lóða sem til úthlutunar eru skv. reglum. Auk þess eru dregnir út varamenn eins margir og bæjarstjórn telur þurfa. Listi yfir tilvonandi lóðarhafa verður birtur á heimasíðu bæjarins, miðvikudaginn 23. mars.

Þeir sem fá vilyrði fyrir lóð verða að leggja fram staðfestingu frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun sem viðurkennd er af íbúðarlánasjóði, á greiðslugetu fyrir fjárfestingu í húsnæði að upphæð 21.500.000 króna fyrir 6. apríl í Þjónustuver bæjarins, Strandgötu 6.

Þann 13. apríl verða þeir sem fengu vilyrði og uppfylla öll skilyrði fyrir lóðaúthlutun boðaðir til fundar í Hafnarborg þar sem þeir draga númer, sem segir til um röð þeirra við lóðarval auk þess sem næstu áfangar í ferlinu verða kynntir nánar.