Dagblaðið-Vísir útgáfufélag ehf. hefur í dag fest kaup á öllu hlutafé í útgáfufélagi vikuritsins Krónikunnar, Fréttum ehf. Krónikan mun eftir kaupin ekki koma út í núverandi mynd. Öllu starfsfólki Krónikunnar mun bjóðast að ganga til liðs við DV segir í fréttatilkynningu.

Gengið hefur verið frá ráðningu Sigríðar Daggar Auðunsdóttur í starf umsjónarmanns helgarblaðs DV og Valdimars Birgissonar í starf markaðsstjóra og sölustjóra áskrifta. Innan nokkurra vikna verður unnt að kaupa DV í áskrift alla útgáfudaga blaðsins en að undanförnu hefur aðeins verið hægt að kaupa helgaráskrift að blaðinu. Þá verður innan örfárra daga unnt að kaupa áskrift að DV á Netinu.

Í tilkynningu kemur fram að eftir kaupin muni DV eflast enn frekar sem dagblað en í tilkynningu segir að viðtökur við blaðinu hafi verið mjög góður fyrsta mánuðinn sem blaðið hefur verið gefið út sem dagblað eftir nokkurt hlé.

Kaupverðið er trúnaðarmál.