Landsvirkjun, fyrir hönd Íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP), og Jarðboranir hafa undirritað verksamning um djúpborun á Kröflusvæðinu, og er um að ræða fyrstu djúpborunarholu sinnar tegundar í heiminum. Samningurinn marka upphaf djúpborana á háhitasvæðum. Upphæð verksamningsins við Jarðboranir er rösklega 970 milljónir króna en áætlað er að kostnaður við djúpborunarverkefnið í Kröflu verði á þriðja milljarð að meðtöldum kostnaði við hönnun, rannsóknir og efnisöflun. Landsvirkjun og Alcoa greiða fyrir borun Kröfluholunnar niður á um 3.500 m dýpi en IDDP greiðir fyrir borun frá 3.500 m niður á 4.500 m dýpi, auk kjarnasýnatöku og annarra sértækra rannsókna sem gerðar verða meðan á borun stendur og ekki síður við prófanir á holunni eftir að borun lýkur. Borað niður á 4,5 kílómetra dýpi Jötunn, einn af borun Jarðborana, mun í haust bora fyrstu 800 metrana við Kröflu en næsta vor tekur Týr, nýjasti borinn í flotanum, við og borar niður á 4.500 m dýpi. Á þessu svæði er óvenju stutt niður á kvikuhólf, eða um 3-5 km og mikil eldvirkni. Á svæðinu hefur iðulega gosið, má t.d. nefna Kröfluelda á árunum 1975 - 1984 og Mývatnselda á árunum 1724 - 1729. Búast má við að berghiti á 4.500 m dýpi geti verið 450 - 600°C sem gerir djúpborunarholuna í Kröflu að heitustu háhitavinnsluholu í heimi. Verkefninu á að ljúka á næsta ári.   Vonir standa til að djúpholurnar geti orðið allt að 5-10 sinnum öflugri en venjulegar háhitaholur og að þær gefi allt að 40-50 MW rafafl hver um sig. IDDP verkefnið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2000 og þegar framkvæmdum lýkur við Kröflu, taka við djúpborunarverkefni á Hengilssvæðinu og á Reykjanesi.  Framkvæmdir við IDDP verkefnið munu standa til ársins 2015 og heildarkostnaður er áætlaður hátt í fjóra milljarða króna.