Hún tók þátt í útboðinu og það er um stórar fjárhæðir að ræða,“ segir Gunnar Steinn Pálsson, talsmaður Michelle Roosevelt Edwards hér á landi í samtali við Viðskiptablaðið. Hann sagðist ekki geta staðfest hve stóran hluta hún hafði keypt en það kemur í ljós á morgun.

Staðfestir hann að tilboðið hafi borist í gegnum félagið W Holding ehf. sem er að fullu í eigu USAerospace Associates sem skráð er í Bandaríkjunum. Hlutafjárútboðinu lauk klukkan 16 í dag. Edwards keypti eignir úr þrotabúi Wow air á síðasta ári í gegnum USAerospace, meðal annars festi hún kaup á vörumerki félagsins.

Morgunblaðið sagði fyrst frá tíðindunum og samkvæmt heimildum blaðsins skráði hún sig fyrir sjö milljarða króna.

Sjá einnig: Eitt ár frá þroti Wow air

Upphaflega boðaði Edwards að Wow air myndi hefja áætlanaflug milli Íslands og Washington í október á síðasta ári. Í lok febrúar á þessu ári tilkynnti Wow air að félagið hygðist hefja frakt- og farþegaflug til Rómar og Sikileyjar á næstunni, ekkert hefur orðið af þessum áformum.