Aðstæður á fjármálamarkaði hérlendis hafa ekki haft teljandi áhrif á fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja utan þeirra sem hafa verið að fjármagna sig í erlendri mynt. Reyndar hafa greiðslur á reikningum frá Bretlandi og Norðurlöndunum tafist og í einhverjum tilfellum haft áhrif á fjármögnun fyrirtækja. Þetta er nokkurn veginn samdóma álit forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem Viðskiptablaðið leitaði til. Að sama skapi er það mat fulltrúa þeirra viðskiptabanka sem rætt var við. Sökum þess hve viðkvæmt ástandið er á fjármálamarkaði þessa dagana vildi enginn þeirra þó koma fram undir nafni.

Fjármögnun haldist óbreytt en eftirlit hert

Þeir aðilar sem rætt var við og nýttu sér fjármögnun í íslenskum krónum voru sammála um að þjónusta viðskiptabankanna hefði haldist óbreytt frá því sem áður var. Hins vegar hafi allt eftirlit aukist til muna strax í upphafi ársins. Eigandi auglýsingastofu sagði stressið hafa aukist hjá viðskiptabanka hennar undanfarna mánuði. Útibúið sjálft stæði sig frábærlega en á bak við það væru ýmsir aðilar að pressa stíft á hert eftirlit. Samt hefði í raun lítið breyst annað en að betur væri fylgst með útlánum. „Við finnum að þeir fylgjast betur með öllum útlánum. Það er kallað stífar eftir ársreikningum og skyldum gögnum. En við erum auðvitað auglýsingastofa og sagan segir að þær hrynji fyrst í kreppunni.“ Hann segir ríkisvæðingu bankans ekki heldur hafa breytt neinu fyrst um sinn, annað en að erfiðara sé að ná inn í útibúið en áður.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í sérblaði um atvinnulíf sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .